Fréttir



Komið að tímamótum í orkugeira

13.2.2017 Skoðun Starfsemi

Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA Capital Management, flutti erindi um orkugeirann á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands

 

Gislividskiptathing3

Greiða mætti upp stóran hluta  skulda ríkissjóðs með sölu á 30% hlut í orkufyrirtækjum í eigu opinberra aðila. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Gísla Haukssonar, forstjóra GAMMA Capital Management, um orkugeirann á nýafstöðnu Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands.

Í erindinu fór Gísli stuttlega yfir sögu íslenskra orkufyrirtækja og hvernig byggst hafi upp verulegt eigið fé í greininni, þrátt fyrir takmarkaða arðsemi um tíma og hversu tæpt rekstur sumra orkufyrirtækja stóð árin 2008 og 2009. Skammtímaskuldir orkufyrirtækja hins opinbera voru um tuttugufaldur rekstrarhagnaður þeirra árið 2009 og á mælikvarða fjármálaheilbrigðis fyrirtækja þætti það benda til verulegra líka á gjaldþroti. Orkuveita Reykjavíkur þurfti enda að grípa til erfiðra björgunaraðgerða í framhaldinu, þar á meðal að hækka orkuverð um hátt í 50%.

„Sem betur fer er staða orkufyrirtækjanna mun betri í dag og hægt að horfa björtum augum til framtíðarinnar,“ sagði Gísli, en bætti um leið við að hann teldi engu að síður tímabært að velta fyrir sér spurningunni um hvort ekki ætti að auka aðkomu einkaaðila að orkugeiranum. Þar kæmu bæði til áhættusjónarmið og eins gæti það orðið til að virkja frumkvöðlakraftinn sem fælist í einkaframtakinu.

„Samkvæmt mati okkar hjá GAMMA þá mætti selja þrjátíu prósenta hlut í opinberu orkufyrirtækjunum fyrir allt að 250 milljarða króna. Í fimm ára fjármálaáætlun Ríkissjóðs er gert ráð fyrir að heildarskuldir ríkissjóðs verði þá rúmlega 500 milljarðar króna. Það mætti því greiða upp um helminginn af öllum skuldum ríkissjóðs með sölu þrjátíu prósenta hluta orkufyrirtækjanna.“

Gísli sagði um leið ljóst að leið sem þessi yrði ekki óumdeild og myndi mæta andstöðu, líkt og ætíð hafi gerst þegar ríkiseinokun hafi verið brotin upp. Hann benti á að samkvæmt rammaáætlun um nýtingu virkjanakosta væri hægt að virkja samtals um 1.400 megawött úr þeim virkjunarkostum sem væru í nýtingarflokki. Þar væri stærsti hlut verkefna á hendi opinberra fyrirtækja.

„Ljóst er að sú raforka fer varla í þjónustu við heimili og almenn fyrirtæki,“ sagði hann, en í fram kom í erindinu að um 80% af raforkuframleiðslu hins opinbera fari til stórkaupenda og afgangurinn í almenna notkun. „Spurningin er því hvort við viljum halda áfram á þeirri braut að auka ríkisvæðingu orkugeirans með tilheyrandi áhættu sem auknum umsvifum fylgja og væntum mögulegum ábata eða að láta einkaaðila koma að orkuverkefnum í ríkari mæli.“

Senda grein