Fréttir



  • Gisli-Hauksson-01

GAMMA styrkir menningarsjóð Egils Skallagrímssonar í London

2.12.2016 Samfélagsmál

GAMMA Capital Management í London hefur samið við íslenska sendiráðið í London um að gerast styrktaraðili Sjóðs Egils Skallagrímssonar, sem hefur það að markmiði að styrkja kynningu á íslenskri menningu á Bretlandseyjum.

Sjóðurinn var stofnaður árið 1990 í samvinnu sendiráðsins og íslenskra viðskiptaaðila á Bretlandi og Írlandi og hefur verið öflugur bakhjarl fyrir íslenska listamenn í þann aldarfjórðung sem hann hefur verið starfandi.

„Það er okkur hjá GAMMA í London mikið ánægjuefni að geta styrkt sjóðinn. Þetta verkefni fellur afar vel að því markmiði GAMMA að styðja við íslenska menningu, en GAMMA hefur á undanförnum árum meðal annars styrkt Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hið íslenska bókmenntafélag og Listahátíð í Reykjavík. Við hófum starfsemi í London í fyrra og ætlum sannarlega að leggja okkar af mörkum til að þess koma íslenskri menningu á framfæri á erlendri grundu og til þess að styrkja enn frekar tengsl Íslands og Bretlandseyja," segir Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA.

„Íslenska sendiráðið í London fagnar því að fá GAMMA til liðs við sjóð Egils Skallagrímssonar. Sjóðurinn hefur lagt mikið af mörkum til kynningar á íslenskri menningu á undanförnum áratugum og aðkoma öflugra fyrirtækja, á borð við GAMMA, skiptir höfuðmáli til þess að hægt sé að halda áfram að efla sjóðinn og styðja við íslensk menningarverkefni á Bretlandseyjum," segir Þórður Ægir Óskarsson, sendiherra Íslands í London.

Gisli-Hauksson-13

Um GAMMA:

GAMMA Capital Management í London sinnir fyrirtækjaverkefnum og fjárfestingarráðgjöf og starfar samkvæmt starfsleyfi frá breska fjármálaeftirlitinu, FCA. GAMMA Capital Management í Reykjavík sinnir sjóðastýringu, undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins á Íslandi, og er með 100 milljarða króna í stýringu.

Senda grein