Fréttir



  • Valdi_armann_panell

Ferðaþjónustan hefur umbreytt efnahagsumhverfinu

22.11.2016 Skoðun

Núna er rétti tíminn til að skila ábatanum af efnahagsstefnunni til hagkerfisins í formi lægri vaxta, segir Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA. Hann var meðal þátttakenda í pallborðsumræðum á peningamálafundi Viðskiptaráðs 2016.

Komið hefur á óvart að Seðlabanki Íslands noti ekki tækifærið nú til lækkunar vaxta. „Ef einhvern tímann væri lag á að skila ábatanum af efnahagsstefnunni til íslenska efnahagskerfisins þá væri það einmitt núna í formi lægri vaxta,“ sagði Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, á peningamálafundi Viðskiptaráðs 2016 sem fram fór fyrir helgi.

Valdimar sagði enn fremur að uppgangur ferðaþjónustu hafi umbreytt landinu með óskuldsettu gjaldeyrisinnstreymi og aukinni veltu í hagkerfinu. „Það hlýtur að þurfa að endurskoða ítarlega jafnvægisástand íslenska hagkerfisins miðað við þessa nýju atvinnugrein,“ sagði hann og benti á  að enginn viti nákvæmlega hvað séu réttir jafnvægisvextir og rétt jafnvægisgengi hverju sinni og þess vegna séu vaxtaákvarðanir að hluta til list frekar en vísindi, og vitnaði þar í orð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra frá peningastefnufundi fyrri ára.

Farið yfir kost og löst peningastefnunnar

Valdimar var þátttakandi í pallborði á fundinum, auk Arnórs Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóra, Ásgeirs Jónssonar, dósents við Háskóla Íslands og efnahagsráðgjafa Virðingar, Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur, fjármálastjóra Advania og Iðu Brá Benediktsdóttur, framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs Arion banka. Fundurinn bar yfirskriftina „Er sjálfstæð peningastefna of dýru verði keypt?“ en yfir kost og löst á stefnunni fór Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, í opnunarávarpi sínu.

Aðalerindi fundarins flutti Már Guðmundsson seðlabankastjóri en í því áréttaði hann að staða efnahagsmála á Íslandi hefði sjaldan verið betri. Íslendingar hefðu fengið verulega búbót síðustu ár þrátt fyrir að hafa gengið hægar um gleðinnar dyr en oft áður í uppsveiflum. Í ræðunni fjallaði hann um vaxtastig hér á landi í lengri tíma samhengi, gjaldeyrismarkaðinn og hugsanlegar breytingar á ramma peningastefnunnar.

Á fundi Viðskiptaráðs Íslands varpaði Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, fyrstu spurningunni í pallborðsumræðunum til Valdimars Ármanns og bað um álit hans á ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans, frá því deginum áður, um að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum.

Seðlabankinn notaði ekki tækifærið

Valdimar sagði komið á óvart að Seðlabankinn skyldi ekki nota tækifærið og lækka vexti, eða gefa í það minnsta vísbendingar um að vaxtalækkanir gætu verið mögulegar. „Verðbólga er búin að vera undir markmiði í þrjú ár og verðbólga án húsnæðis hefur verið undir eitt prósent í tvö ár og verðbólguvæntingar hafa fundið aukna kjölfestu um og undir markmiði, enda lækkuðu verðbólguvæntingar um 0,5 prósentustig þegar vextir voru lækkaðir í ágúst,“ sagði hann.  

Valdimar segir peningastefnunefndina ekki virðast horfa til röksemda sem styðji lækkun vaxta, eins og þá staðreynd að hagvöxtur sé ekki drifinn áfram af skuldsetningu heldur nýrri atvinnugrein, ferðaþjónustunni og að útlánaaukning sé í rauninni ótrúlega lítil ásamt því að þjóðhagslegur sparnaður sé að aukast umtalsvert. „Þá er gjaldeyrisinnstreymið ekki tekið að láni og hefur gefið Seðlabankanum færi á því að byggja upp óskuldsettan gjaldeyrisforða upp á 40 prósent af vergri landsframleiðslu.“

Valdi_armann_frosti_olafssson

Mikill vaxtamunur við útlönd

Þá minntist Valdimar á að sláandi sé hvað vaxtamunur við útlönd sé mikill eða um 5% nafnvaxtamunur. Og þegar horft sé til raunvaxta til 10 ára sé raunvaxtamunur hátt í 3%, á sama tíma og skuldaraálög á Ísland í erlendri mynt hafi verið að lækka hratt og séu komin undir 1%.

Hann velti upp spurningunni um af hverju íslenskt hagkerfi mætti ekki njóta góðs af velgengninni í formi lægri vaxta. „Þegar þenslumerkin láta sjá sig í tölunum þá geti verið fullt tilefni til að hækka vexti aftur en það virðist litlu skipta hjá Seðlabankanum hvort hér sé kreppa og fjármagnsflótti eða uppgangur og fjármagnsinnflæði - alltaf spýtir módelið háum vöxtum út úr sér.“

Þá telur Valdimar að ekki megi bera saman peningastefnuna og áhrif hennar saman við stöðu efnahagsmála eins og hún var fyrir hrun. Núna séu höft á fjármagnsflæði inn og út úr landinu og ekkert gagnsæi eða framsýni í frekari afléttingu hafta, himinháar eiginfjárkvaðir lagðar á bankana sem hamli útlánagetu þeirra ásamt möguleika á því að hækka bindiskylduna. Þá haldi Seðlabankinn krónunni veikari en hún væri ella með gríðarlegum gjaldeyriskaupum. Í ofanálag við allt þetta haldi Seðlabankinn vöxtunum háum. 

Við hverju er Seðlabankinn að bregðast?

Valdimar spyr hvaða spennu er verið að bremsa með háum vöxtum. „Seðlabankinn telur að það megi rekja skort á vinnuafli til uppgangs í ferðaþjónustu og Seðlabankinn telur að ástæður hækkandi húsnæðisverðs séu takmarkað framboð, lítil fjárfesting og aukin útleiga til ferðamanna. Hvernig bremsar hækkun vaxta þörf á vinnuafli í ferðaþjónustu? Hvernig bremsar hækkun vaxta hækkandi húsnæðisverð miðað ástæður hækkunar?“ spyr Valdimar og bendir á orð Seðlabankans sjálfs í efnahagsriti sínu, Peningamálum: „[E]nn sem komið er sjást ekki afgerandi merki um vaxandi almennan innlendan verðbólguþrýsting þrátt fyrir aukinn kaupmátt og kröftugan efnahagsbata“.

Senda grein